Titringur vegna áforma Árborgar

Titringur er meðal sveitarstjórnar­manna á Suðurlandi í kjölfar til­kynningar Sveitarfélagsins Ár­borg­ar um áform um úrsögn sveitarfélagsins úr Skólaskrifstofu Suðurlands frá og með 1. janúar 2012.

Eyþór Arnalds formaður bæjar­ráðs Árborgar segir nauðsynlegt að endurskoða kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins í skrifstofunni og segir liggja fyrir að endurmeta þörf á þjónustu hennar gagnvart sveitar­félaginu. „Það er ljóst að Sveitar­félagið Árborg er að greiða talsvert háa upphæð til reksturs Skóla­skrif­stofunnar og spara má umtalsverða fjármuni með því að starfsfólk á vegum sveitarfélagsins sinni þeim verkefnum sem um ræðir,“ segir Eyþór. Sparnaðurinn er talinn nema á bilinu 15-17 milljónum króna á ári.

Eggert Valur Guðmundsson fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjar­stjórn Árborgar segir varhugavert að draga Árborg út úr samstarfinu. Eftir eigi að skoða hvort þjónustu­stigið fari niður á við með þeirri ákvörðun. „Við vitum nú hvað við höfum, en ekki alveg hvað við fáum,“ segir Eggert. Hann segir að mögulega megi reikna sér einhvern sparnað með þessu en huga þurfi að öðru í því sambandi.

„Sú áleitna spurning um samfélagslega ábyrgð sveitarfélagsins Árborgar sem stærsta sveitarfélagsins í samstarfi sveitarfélaga á Suðurlandi kemur upp, og menn þurfa að hugsa það til enda hvernig því samstarfi verði háttað innan SASS,“ segir Eggert.

Fyrri greinÚtafakstur við Neðri-Dal
Næsta greinStrætóferðir mögulega slegnar af