Rétt fyrir klukkan 14:00 í dag barst Neyðarlínunni aðstoðarbeiðni vegna 10 ára drengs sem grafist hafði í snjóflóði í Hamrinum við Hveragerði.
Hafði snjóhengja fallið niður hlíð Hamarsins þar sem börn voru að leik. Fjórtán ára bróðir drengsins sýndi mikið snarræði og hárrétt viðbrögð er hann staðsetti bróður sinn í flóðinu, gróf frá andliti hans og hringdi eftir aðstoð til Neyðarlínu 112.
Hjálparsveit skáta í Hveragerði, Björgunarfélag Árborgar og Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka voru kallaðar til á hæsta forgangi og sinntu björgun drengsins. Björgunarmenn frá HSSH komu fyrstir á staðinn og í kjölfarið komu aðrir björgunarmenn og sjúkraflutningamenn. Aðgerðin gekk gríðarlega vel og hratt fyrir sig og betur fór en á horfðist. Að sögn foreldra drengsins mun líðan hans vera eftir atvikum góð.
Lögregla og Slysavarnarfélagið Landsbjörg vilja beina þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferð við Hamarinn í Hveragerði eða við hlíðar hans. Veðuraðstæður hafa skapað fjölda snjóhengja sem hætta er á að geti fallið.
Björgunarfélag Árborgar vill einnig benda á að flóð hefur fallið við aðal gönguleiðina í Ingólfsfjalli og í raun eru líkur á mikilli snjóflóðahættu víðs vegar á Suðurlandi um þessar mundir.

