Tvö vélsleðaslys voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi um helgina og voru þrír fluttir á sjúkrahús.
Á laugardag lenti tíu ára drengur undir sleða sem hann ók sjálfur í Hveradölum. Drengurinn festist í belti sleðans.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var stödd í nágrenninu og var hún fengin til að flytja drenginn til aðhlynningar á slysadeild en hann var talinn axlarbrotinn.
Fóru fram af snjóhengju
Í gær varð síðan annað slys austan við Veiðivötn þegar vélsleði með ökumanni og farþega fór fram af snjóhengju. Ökumaður sleðans varð síðan fyrir mannlausum sleða sem einnig fór fram af hengjunni en ökumaður hans hafði náð að kasta sér af áður en sleðinn fór fram af hengjunni.
Ökumaðurinn slasaðist nokkuð og var fluttur af samferðamönnum sínum á þotu aftan í öðrum sleða áleiðis á móti sjúkrabifreið. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug á móti sjúkrabílnum og tók við manninum og flutti á sjúkrahús í Reykjavík. Viðkomandi var með meðvitund en upplýsingar um meiðsli hans og þess sem var á sleðanum með honum liggja ekki fyrir, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.