Í dag eru 25 manns í einangrun á Suðurlandi vegna COVID-19, þar af tíu í Þorlákshöfn.
Í Þorlákshöfn eru nítján manns í sóttkví og fjórir í Ölfusinu. Í samráði við rakningateymi Almannavarna var ákveðið að loka Grunnskólanum í Þorlákshöfn í dag, á meðan verið er að ná utan um málið.
Þá eru níu í einangrun á Selfossi og 68 í sóttkví og fimm í einangrun á Stokkseyri og Eyrarbakka og 134 í sóttkví. Skólabörn og starfsmenn Barnaskólans á Stokkseyri og Eyrarbakka munu fara í skimun í dag og stærstur hluti þeirra losnar úr sóttkví ef niðurstaðan er neikvæð.
Séu allar tölur teknar saman eru samtals 232 í sóttkví á Suðurlandi og þar að auki eru 93 í skimunarsóttkví á Suðurlandi eftir að hafa farið í sýnatöku á landamærunum.
Þetta kemur fram á heimasíðu HSU. Engin smit eru austan Þjórsár.
Í gær greindust sextán manns innanlands með COVID-19 og voru þrír ekki í sóttkví, að því er fram kemur á covid.is. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er helmingur smitanna innanlands í gær tengdur Suðurlandi.