Tíu manns sem hafa unnið við framkvæmdir við Suðurlandsveg hjá Ingileifi Jónssyni ehf. var sagt upp í gær.
Hægagangur í framkvæmdunum á næstu þremur mánuðum og slæm verkefnastaða fyrirtækisins er ástæðan að sögn eiganda þess.
Í frétt á mbl.is er haft eftir Ingileifi að vinna við Suðurlandsveg verði ekki með miklum látum næstu tvo til þrjá mánuðina.
„Það er verið að klára ákveðna áfanga og ekki hægt að fara í aðra fyrr en fer að vora. Framkvæmdir í janúar og febrúar verða í lágmarki þarna uppi á heiði. Síðan eru náttúrulega almennt önnur verkefni að klárast hjá fyrirtækinu og svo sem ekkert framundan annað en þetta verkefni. Þetta voru nauðsynlegar ráðstafanir sem eru svo sem ekkert skemmtilegar og hlutur sem ég hefði helst ekki vilja standa frammi fyrir,“ segir Ingileifur Jónsson, verktaki, í samtali við mbl.is.
Hann segir góðar líkur á að einhverjir verði ráðnir aftur þegar skriður kemst aftur á framkvæmdirnar með vorinu en 4-5 af þeim sem hafi fengið uppsagnarbréf í dag hafi verið ráðnir til skamms tíma. Annars væru framtíðarhorfur í geiranum mjög óljósar.