Flugbjörgunarsveitin á Hellu og Dagrenning á Hvolsvelli voru kallaðar út á níunda tímanum í gærkvöldi vegna tveggja manna er fest höfðu snjósleða sína í krapa í og við Drekavatn.
Annar sleðamannanna stóð á sleða sínum úti í vatninu og komst hvorki lönd né strönd en hinn var á landi. Hringdi hann eftir hjálp. Sendir voru jeppa- og sleðahópar frá björgunarsveitunum auk þess sem óskað var eftir aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Þyrlan var fyrst á staðinn og bjargaði mönnunum. Hún flutti þá svo til móts við leiðangur björgunarsveitanna sem fóru með þá aftur á vettvang til að sækja sleðana. Þeim aðgerðum lauk ekki fyrr en klukkan sjö í morgun en alls tóku 15 björgunarmenn þátt.