Tívolí í Barnabæ á morgun

Fáni Barnabæjar var dreginn að húni við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri síðastliðinn mánudag þegar fríríkið var sett á laggirnar í fimmta sinn.

Barnabær er orðinn ómissandi þáttur í skólastarfinu á vordögum við ströndina. Þetta á við grunnskólann og einnig elstu nemendur leikskólans sem taka þátt í Barnabæ. Í nokkra daga í byrjun júní breyta kennarar, nemendur, foreldrar og aðrir starfsmenn skólanum í alveg einstakan smábæ með alls kyns uppákomum. Allt iðar af lífi, gleði og vinnusemi.

Í ár verður gerð tilraun með að opna tívolí. Vinnustöðvar eins og draugahús, tombóla, bingó, tívolíþrautir, spákona og furðumyndatökur o.fl. hafa litið dagsins ljós og hafa börnin verið að taka við ráðningarsamningum eftir langt umsóknarferli.

Á morgun, fimmtudaginn 4. júní frá kl. 10-12, verður Barnabæjartívolíið opnað gestum og gangandi í skólanum á Stokkseyri. Við inngang þarf að kaupa sér armband á litlar 500 kr. Þar sem um tívolí er að ræða verður ekki gefinn út nýr gjaldmiðill, heldur er hægt að kaupa tívolímiða eins og í venjulegu tívolíi. Hægt er að kaupa 5 miða á 500 kr og 10 miða á 1000 kr.

Fyrri greinJón Daði og Viðar mæta Tékkum
Næsta greinHraðast ekið á söndunum