Nokkrum eldingum sló niður í Mýrdalnum síðdegis í dag og varð tjón á húsi á svæðinu þess vegna.
Vísir greinir frá þessu og hefur eftir Karli Matthíasi Helgasyni, sérfræðingi í stjórnstöð RARIK, að rafmagnstaflan í húsinu hafi sprungið. Fleiri einstaklingar fundu fyrir rafmagnsbilunum en engar bilanir voru í kerfi RARIK.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, vekur athygli á eldingaveðrinu á Facebooksíðu sinni og segir að eldingarnar hafi komið aðeins á óvart. „Gerðu ekki beinlínis boð á undan sér!“ skrifar hann á Facebook-síðu sinni.