„Ummerki um ref er nú að finna út um allt niðri í byggð,“ segir Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Að hans sögn hafa grenjaskyttur vaktað afréttinn og hálendið mjög vel en þar séu gömul og þekkt greni sem hafi verið tóm árum saman. Hins vegar finnist nú greni niður undir bæjum.
Esther Rut Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Melrakkaseturs Íslands, segir að möguleg skýring á því að refurinn sæki meira til byggða sé leit eftir fæðu. Meiri fæðu sé að finna í kringum sumarbústaði og jafnvel að sumarbústaðafólk gefi tófunni æti.
Sveitarstjórnir á Suðurlandi hafa lýst yfir þungum áhyggjum vegna þess að ríkið mun ekki lengur veita fé til refaveiða og hefur þannig varpað öllum kostnaði við þær yfir á sveitarfélögin.