Föstudaginn 4. febrúar mun Tokyo Sushi opna í Krónunni á Selfossi. Síðustu mánuði hefur veitingastaðurinn sent sushi daglega frá Reykjavík á Selfoss en nú verður hægt að fá ferskt sushi á Selfossi allan daginn, á opnunartíma Krónunnar.
„Við höfum verið að senda sushi í dágóðan tíma til Krónunnar á Selfossi frá Reykjavík og það hefur alltaf verið gríðarlega mikil eftirspurn. Oft bíður fólk við kælirinn til reyna að krækja sér í bakka áður en þeir seljast upp. Það liggur við að það sé sama hvað við sendum mikið, þá virðist það ekki vera nóg, sem sýnir mikinn áhuga Sunnlendinga á vörunum okkar,“ segir Sigríður María Hilmarsdóttir, þjónustustýra hjá Tokyo Sushi, í samtali við sunnlenska.is.
Heimsfaraldurinn seinkaði opnuninni
„Við höfum síðastliðin ár fengið mikið af fyrirspurnum um hvort við stefndum ekki á að opna einn stað eða útibú á Suðurlandi. Það hefur verið mikið um að fólk komi akandi langar leiðir til Reykjavíkur til þess að sækja sér sushibakka fyrir fermingar og aðrar veislur. Það var því aðeins tímaspursmál hvenær við myndum opna stað sem væri aðeins nær þessum indæla og áhugasama hópi fólks fyrir austan fjall.“
Sigríður segir að undirbúningsferlið hafi gengið vel fyrir sig, fyrir utan nokkrar tafir. „Byggingarvinnu seinkaði og ofan á það gekk frekar brösulega í fyrstu að fá öll tæki og tól send til landsins vegna seinkana í flutningabransanum á heimsvísu í covid faraldrinum. Það gaf okkur hins vegar bara meiri tíma fyrir þjálfun starfsmanna, skipulagningu og svo framvegis, svo við getum lítið kvartað.“
„Svakalega spennt“
„Útibúið skapar um þrjú stöðugildi, en við ráðum inn tvo metnaðarfulla vaktstjóra í eldhúsið, einn aðstoðarmann í hálfu starfi og svo hlutastarfsmenn til að aðstoða um helgar og á virkum dögum þegar álagið verður meira. En við sjáum bara til hvort að við þurfum að bæta við fleira starfsfólki ef eftirspurn eftir sushi verður meiri en áætlað var.“
„Við erum alveg svakalega spennt fyrir þessu. Hugmyndin hefur verið á borðinu mjög lengi og við erum í skýjunum yfir því að þetta sé loksins að verða að veruleika. Við getum ekki beðið eftir að matreiða gómsætt sushi fyrir austan fjall og vonum að viðtökurnar verði góðar,“ segir Sigríður að lokum.