Tólf ára drengur fluttur með þyrlu á sjúkrahús

Um borð í TF-LIF. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í tvö útköll á Suðurlandi í gær. Seint í gærkvöldi varð vinnuslys á sveitabæ í Ásahreppi þar sem tólf ára drengur slasaðist.

Slysið varð með þeim hætti að skófla losnaði af gálga ámoksturstækja dráttarvélar sem notuð var við niðurrekstur á girðingarstaur. Skóflan lenti á drengnum og var hann fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík.

Meiðsli hans eru hinsvegar mun minni en óttast var og mun hann væntanlega útskrifast fljótlega af sjúkrahúsi.

Í hinu tilvikinu slasaðist bandarísk kona við Gullfoss á þriðja tímanum í gær þegar hún féll afturfyrir sig og lenti á hnakkanum á klöpp. Áverkar hennar reyndust alvarlegir og gekkst hún undir aðgerð á sjúkrahúsi í Reykjavík. Frekari upplýsingar um líðan hennar liggja ekki fyrir.

Fyrri grein„Góðar viðræður og góður samhljómur hjá flokkunum“
Næsta greinKatrín Ósk í Selfoss