Tólf fluttir á sjúkrahús eftir að tveir bílar fuku útaf

Rúta með 34 manns innanborðs fauk útaf Þjóðvegi 1 um klukkan 17 í dag rétt austan við Skaftafell. Á sama tíma var tilkynnt um að húsbíll með fjórum innanborðs hafi fokið útaf á svipuðum slóðum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi voru tólf aðilar fluttir með minniháttar meiðsli á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Um var að ræða erlenda ferðamenn. Aðrir voru fluttir í Freysnes og fengu þar aðhlynningu læknis áður en hópurinn var fluttur til Reykjavíkur með rútu þar sem áfallateymi Rauðakross Íslands mun bíða þeirra.

Mjög hvasst var í Öræfum um þetta leiti en vindhviður á svæðinu slógu í 45 m/s þegar óhöppin áttu sér stað. Vindur er núna að detta niður.

Að aðgerðinni komu sjúkrabílar og læknir frá Höfn, sjúkrabíll frá Kirkjubæjarklaustri og Björgunarsveitin Kári í Öræfum, ásamt lögreglu á Suðurlandi.

Fyrri greinÞór Íslandsmeistari í -90 kg flokki
Næsta greinGuðjón Öfjörð fór holu í höggi