Búið er að flytja alla slasaða af vettvangi umferðarslyssins í Skaftárhreppi í morgun. Tildrög slyssins voru þau að rútan ók aftan á fólksbifreið og síðan út fyrir veg þar sem hún valt á hliðina.
Alls voru 33 fluttir af slysstað í fjöldahjálparstöðina á Kirkjubæjarklaustri. Tólf voru fluttir með þyrlum af vettvangi alvarlega slasaðir og eru þyrlurnar lentar í Reykjavík. Einn er látinn.
Allir þeir sem voru óslasaðir eða lítið slasaðir hafa verið fluttir í fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri þar sem verið er að hlúa að þeim. Þeir verða fluttir til Reykjavíkur eftir því sem flutningsgeta leyfir. Sjúkrabifreiðar frá Vík, Kirkjubæjarklaustri, Höfn, Hvolsvelli og Selfossi eru komnar á vettvang með mannskap til aðhlynningar þeirra slösuðu. Þá hafa þyrlurnar verið mannaðar hjúkrunarfólki og sjúkraflutningamönnum í ferðum sínum.
Hundar og drónar notaðir til leitar
Laust eftir klukkan þrjú í dag höfðu viðbragðsaðilar náð utan um talningu þeirra sem lentu í slysinu, en ökumaður og farþegi fólksbifreiðarinnar, ferðamenn frá Litháen, eru óslösuð og skiluðu sér ekki inn í fjöldahjálparstöðina. Þar höfðu 46 manns skilað sér í gegnum skráningu á vettvangi.
Gengið hefur verið úr skugga um að ekki séu fleiri í eða undir rútunni. Þá hafa björgunarsveitarmenn og lögregla með leitarhund og dróna leitað nágrenni vettvangs.
Bratt niður af veginum
Sem fyrr segir voru tildrög slyssins með þeim hætti að rútan ók aftan á fólksbílinn sem var að beygja inn á útsýnisstað vestan Hunkubakka. Rútan endaði á hliðinni utan vegar en bratt er niður af veginum þar sem slysið varð. Mikil hálka er á vettvangi, bjart veður og kalt.
Björgunarsveitir gegna lykilhlutverki
Sjúkraflutningamenn frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sinna nú varðstöðu í Árnes- og Rangárvallasýslu. Þá aðstoða sérsveitarmenn og lögreglumenn frá LRH við almenna löggæslu á þessu svæði. Tæknideild LRH aðstoðar við vettvangsrannsókn. Björgunarsveitir gegna að venju lykilhlutverki í verkefninu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.
TENGDAR FRÉTTIR:
Alvarlegt rútuslys vestan við Klaustur
Einn látinn og sjö alvarlega slasaðir