Sjö umferðarslys eru skráð í dagbók lögreglunnar síðan síðasta föstudag. Í þremur þessara slysa urðu meiðsli á fólki og alls eru tólf slasaðir eftir þau.
Á minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa varð alvarlegt slys á Biskupstungnabraut og voru sex fluttir á sjúkrahús, þar af voru þrír fluttir með alvarleg meiðsli á Landsspítalann.
Ótækt að vera með laus börn í bílnum
Af öðrum málum er það að segja að fjórir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um vímuakstur, tveir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og tveir fyrir ölvunarakstur. Eitt fíkniefnamál kom upp og er til rannsóknar.
Þá voru fjórir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og sá sem hraðast ók var á 120 km/klst hraða, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Einn var stöðvaður með laust barn í bílnum og er slíkt með öllu ótækt að sögn lögreglu.
Þrjár líkamsárásir
Síðustu daga hefur lögreglan einnig fengið inn á borð til sín tvö þjófnaðarmál, eitt fjársvikamál og þrjú líkamsárásarmál en tvö þeirra teljast til heimilisofbeldis.