Umferðin um páskana í ár reyndist töluvert meiri en á páskum í fyrra. Um 12% fleiri bílar fóru um Hellisheiðina þessa páskana en þá síðustu.
Páskar í ár voru fyrr á ferð en í fyrra en að öllu jöfnu er meiri umferð því seinna sem þeir eru á árinu. Greinilega var meiri umferð á Páskadag miðað við fyrri páska og skýrist það líklega af slæmri veðurspá á annan í páskum, og fleiri hafi því haldið heim á leið á Páskadag.
Páskaumferð síðustu ára var mest árið 2010 en þá nýttu margir fríið til að skoða eldgosið í Magna og Móða á Fimmvörðuhálsi og hraunstraumana í Goðahrauni.
Alls fóru 33.209 bílar yfir Hellisheiði um síðustu páskahelgi. Þeir voru 29.724 um páskana í fyrra en 44.676 á páskum árið 2010.