Alls fæddust 271 sunnlensk börn á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar sem er fjölgun um 9,2% á milli ára. Flest börn fæddust í Árborg, 134 talsins.
Árið 2011 er þriðji stærsti árgangurinn ef miðað er við síðasta áratug en aðeins fæddust fleiri börn árin 2007 og 2008, 289 og 290.
Miðað við íbúafjölda eru Mýrdælingar duglegastir að fjölga sér en átta börn fæddust í Mýrdalshreppi á síðasta ári og eru þeir 1,74% af íbúatölu hreppsins. Hlutfallið er svipað í Árborg þar sem nýburar eru 1,72% af íbúatölu sveitarfélagsins.
Í Rangárþingi eystra fæddust 25 börn sem er nokkuð gott í rúmlega 1.700 manna sveitarfélagi og Hrunamenn geta einnig verið sáttir við sitt en þar fæddust 11 börn.
Sveiflur hjá sveitarfélögum eru í flestum tilvikum litlar milli ára. Þó er áberandi fjölgun nýbura í Árborg og Hrunamannahreppi. Ellefu Hrunamenn fæddust árið 2011 en voru aðeins fjórir árið 2010.
Nýburum fækkar um 50% í Flóahreppi þar sem fjögur börn fæddust árið 2011 en þau voru átta árið 2010. Einnig minnkar getan í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem tvö börn fæddust á síðasta ári en þau voru sex árið 2010. Í Skaftárhreppi er hlutfallslega minnst fjölgun en nýburar ársins 2011 eru 0,45% af íbúatölu hreppsins.
Aðeins 33,5% sunnlenskra nýbura fæðast á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi en þar kom 91 barn í heiminn á síðasta ári.