Betur fór en á horfðist þegar eldur kviknaði í djúpsteikingarpotti á veitingastað í mathöllinni Gróðurhúsinu í Hveragerði í morgun.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn kl. 11:24 og var mikill viðbúnaður vegna útkallsins en slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði og Selfossi, ásamt sjúkraflutningamönnum frá HSu og lögreglu voru kallaðir á staðinn.
„Eldurinn var bundinn við pottinn en starfsmenn á veitingastaðnum náðu að halda honum niðri þangað til við komum. Það var töluverður eldur þarna á tímabili og þeir tæmdu örugglega úr tíu slökkvitækjum á pottinn. Slökkviliðsmenn slökktu síðan endanlega í þessu þegar þeir komu,“ sagði Halldór Ásgeirsson, aðalvarðstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.
Að sögn Halldórs varð ekki mikið tjón á húsnæðinu en mikil þrifavinna sé framundan vegna reyks of slökkvidufts. Mathöllin er lokuð og óvíst að hún verði opnuð aftur í dag.
„Þetta fór eins vel og það gat farið, það slasaðist enginn og þetta virðist hafa sloppið ágætlega,“ segir Halldór en viðbúnaður var mikill vegna útkallsins. „Já, þetta er stórt hús og við förum af stað með meira en minna í svona tilvikum.“
Slökkviliðsmenn eru enn á staðnum en unnið er að reykræstingu og fylgst með því að það kólni aftur í pottinum.