Tómas Ellert Tómasson, verkfræðingur og verkefnastjóri á skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg, mun leiða lista Miðflokksins í Árborg í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Tómas Ellert er fæddur 1970 og er byggingarverkfræðingur að mennt.
Í tilkynningu frá Miðflokknum segir að Miðflokknum í Árborg sé mikill fengur af því að fá Tómas Ellert til liðs við sig en hann er gjörkunnugur bæjarstjórnarmálum og starfaði hann sem varabæjarfulltrúi í Árborg 2010-2014 ásamt því að vera stjórnarformaður Leigubústaða Árborgar, varaformaður skipulags- og byggingarnefndar, í stjórn framkvæmda- og veitusviðs, formaður starfshóps Sveitarfélagsins Árborgar vegna uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir unglingalandsmót UMFÍ 2012 og landsmót UMFÍ 2013 og fulltrúi Sveitarfélagsins Árborgar í samgöngunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Tómas Ellert var kosningastjóri Miðflokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar sl. haust, hann er jafnframt stofnandi og ritstjóri Forsíðufrétta, grasrótarvefmiðils Miðflokksins.
Miðflokkurinn auglýsti eftir áhugasömum einstaklingum til að skipa lista flokksins í Árborg og rann frestur til þess út í gær. Stefnt er að því að birta efstu sex frambjóðendur listans fljótlega eftir páska.