Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og formaður bæjarráðs, leiðir framboðslista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Árborg, M-listann, í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Efstu tíu á framboðslistanum, ásamt þeim tveim sem skipa heiðurssæti listans, voru kynnt á aðalfundi Árnesingadeildar Miðflokksins síðdegis í dag.
„Undanfarin fjögur ár hefur Sveitarfélagið Árborg tekið algerum stakkaskiptum. Hugmyndirnar sem settar voru á blað og áætlanirnar sem gerðar voru í upphafi þessa kjörtímabils, og unnið var eftir undir vinnuheitinu „Nýtt upphaf í Árborg“, hafa nú risið og raungerst hver af annarri. Um allt land er eftir því tekið hve vel hefur lukkast. Umframeftirspurn eftir húsnæði og hin fordæmalausa íbúafjölgun í sveitarfélaginu segir sína sögu um hve eftirsóknarvert það er að búa hér,“ segir í tilkynningu frá M-listanum.
„Umskiptin sem eiga sér nú stað, úr fábreytni í fjölbreytni á öllum sviðum mannlífsins, hafa bætt búsetuskilyrðin hér svo um munar. Framboðslisti M-lista og Sjálfstæðra í Árborg mun halda áfram að vinna að því að sveitarfélagið verði eftirsóknarverður búsetukostur. Nú undir vinnuheitinu „Nýja Árborg“.“
Efstu tíu sæti listans eru þannig skipuð:
1. Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur, formaður bæjarráðs og eigna- og veitunefndar
2. Ari Már Ólafsson, húsasmíðameistari, nefndarmaður í skipulags- og byggingarnefnd
3. Sigurður Ágúst Hreggviðsson, sölumaður og fyrrverandi varabæjarfulltrúi í Árborg
4. Erling Magnússon, lögfræðingur og húsasmíðameistari
5. Dr. Ragnar Anthony Antonsson, doktor í heimspeki, kennari
6. Dýrleif Júlía Guðlaugsdóttir, líftæknifræðingur og dagforeldri
7. Sveinbjörn Jóhannsson, húsasmíðameistari
8. Björgvin Smári Guðmundsson, grunnskóla- og skákkennari og fyrrverandi formaður Skákfélags Selfoss og nágrennis
9. Sverrir Ágústsson, félagsliði á réttargeðdeild LSH
10. Jón Ragnar Ólafsson, atvinnubílstjóri og íþróttaáhugamaður
Heiðurssætin skipa þau Ásdís Ágústsdóttir, húsmóðir og Guðmundur Kristinn Jónsson, heiðursformaður HSK og fyrrverandi bæjarfulltrúi.