Tómas Ellert ræsir Framsóknarvélina

Halla Hrund og Tómas Ellert. Ljósmynd/Aðsend

Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg, er genginn til liðs við kosningateymi Höllu Hrundar Logadóttur, oddvita Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Tómas Ellert hafði gefið kost á sér í oddvitasæti Miðflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Hann dró það framboð til baka og eftir að listi Miðflokksins var birtur sagði Tómas Ellert sig úr flokknum.

Hann er nú genginn til liðs við kosningateymi Höllu Hrundar og styður Framsókn í Suðurkjördæmi. Tómas Ellert greindi frá þessu á Facebook í dag, þar sem hann sagði sína skoðun að stjórnmálamenn eigi að byggja sín samskipti og störf á heilindum, trausti og trúverðugleika.

Tómas Ellert studdi Höllu Hrund í síðustu forsetakosningum og segist ætla að styðja hana með ráðum og dáð vikurnar fram að alþingiskosningum. „Nú ræsum við vélarnar í Suðurkjördæmi og komum hlutunum í verk!“ segir Tómas Ellert.

Fyrri greinMikill hiti í Frystikistunni
Næsta greinLétt sveifla undir áhrifum frá íslenskri náttúru