Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg, sækist eftir oddvitasæti Miðflokksins í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.
Ellert hefur sent tilkynningu þess efnis á uppstillingarnefnd Miðflokksins í Suðurkjördæmi en Vísir greindi frá þessu í gærkvöldi.
„Það er óhætt að segja að margir hafa komið að máli við mig undanfarið og rætt þau mál við mig, bæði flokksmenn og aðrir og hvatt mig til að óska eftir oddvitasætinu. Ég væri að bregðast því fólki sem að ég get kallað stuðningsmenn mína ef að ég óskaði ekki eftir því að leiða listann í Suðurkjördæmi,“ segir Tómas Ellert í samtali við Vísi.
Tómas Ellert var einn af stofnfélögum Miðflokksins árið 2017 og var bæjarfulltrúi flokksins í Árborg frá 2018 til 2022. Hann hefur gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn og var kosningastjóri flokksins á landsvísu í Alþingiskosningum haustið 2021. Hann er nú í málefnanefnd Miðflokksins og varaformaður kjördæmafélagsins í Suðurkjördæmi.