„Tónlistin hefur verið minn eldur“

Júlí Heiðar flytur lagið Fire ásamt Dísu næstkomandi laugardagskvöld. Ljósmynd/Mummi Lú

Sunnlendingar eiga sína fulltrúa sem keppa til úrslita í Söngvakeppni Sjónvarpsins næstkomandi laugardagskvöld. Þá kjósa landsmenn framlag sitt í Eurovision, sem fer fram í Basel í Sviss þann 17. maí.

Þetta eru annars vegar lagið Fire í flutningi Júlí Heiðars Halldórssonar frá Þorlákshöfn og Þórdísar Bjarkar Þorfinnsdóttur og hins vegar lagið Set Me Free í flutning Stebba Jak en höfundur lagsins, Alda B. Lilliendahl Ólafsdóttir býr neðst á Skeiðunum og rekur verslun á Selfossi.

Sunnlenska.is sló á þráðinn til Júlí Heiðars til að heyra í honum hljóðið og hvernig stemningin er fyrir laugardagskvöldinu.

„Við erum náttúrulega bara í skýjunum að vera komin áfram og afskaplega þakklát öllum þeim sem kusu lagið og komu að atriðinu á einn eða annan hátt,“ segir Júlí Heiðar.

Júlí Heiðar á sviðinu. Ljósmynd/Mummi Lú.

Eldurinn í tónlistinni
Innblásturinn að laginu sótti Júlí Heiðar til erfiðrar reynslu í æsku. „Lagið fjallar um að finna innri styrk til þess að takast á við mótlæti og árekstra sem maður getur lent í, í lífinu. Ég lenti í einelti sem barn og allt mitt líf hef ég verið að reyna að vinna úr því. Maður er mjög viðkvæmur á mótunarárunum og geta oft áföll eins og til dæmis einelti sett stóran svip á hvaða manneskja maður verður.“

„Tónlistin hefur verið minn eldur og leið til þess að gera mig að betri og sterkari persónu en þetta er verkefni sem klárast aldrei. Með hverju árinu, laginu og textanum sem líður finnur maður betur og betur hver maður er og hvað nærir eldinn.“

Júlí og Dísa. Ljósmynd/Mummi Lú

Dísa stækkar lagið
Júlí Heiðar segir að þegar Dísa kom inn í lagið hafi viðfangsefnið breyst aðeins. „Eiginlega má segja að hennar texti hafi opnað á nýtt sjónarhorn textans. Textinn hennar stækkar viðfangsefnið og fjallar einfaldlega um hvernig samband við aðra manneskju getur kallað fram þær tilfinningar sem ég hafði skrifað um. Þegar einhver slítur sambandi við mann, hvort sem það er ástarsamband eða annarskonar samband þá fer maður í gegnum höfnunartilfinningu sem brýtur niður sjálfstraustið manns. Þá þarf maður að finna eldinn.“

Lagið Fire er samið af Júlí Heiðari, Andra Þór Jónssyni, Birgi Steini Stefánssyni og Ragnari Má Jónssyni. Textinn er eftir Júlí Heiðar, Dísu og Andra Þór.

Flytja lagið bæði á íslensku og ensku
„Við viljum bara hvetja fólk til þess að fylgjast með á laugardaginn og hjálpa okkur að fara alla leið til Basel. Við verðum númer þrjú í röðinni á laugardaginn og ég kem til með að flytja lagið á ensku en Dísa heldur sig við íslenskuna í rappinu. Númerið okkar er því 900-9903.“

„Við viljum auðvitað fá allan þann stuðning sem við getum svo það geti nú verið sunnlenskur Eurovisionfari þetta árið!“ segir Júlí Heiðar að lokum.

Fyrri greinFimmtán Íslandsmeistaratitlar og eitt mótsmet á MÍ 15-22 ára
Næsta greinRúmlega 50 keppendur á Grunnskólamóti HSK í glímu