Björgunarfélag Árborgar hafði í nægu að snúast í dag vegna óveðursútkalla þar sem trampólín og lausamunir fuku og tré rifnuðu upp með rótum.
Það hefur verið stífur vindur á Selfossi í allan dag en veðrið var verst á milli klukkan 14 og 15.
Meðal annars rifnuðu stór tré upp með rótum í grónum görðum við Reynivelli, Sólvelli og Kirkjuveg. Þá lagðist megnið af reynitrjám sem plantað var nýverið í Sigtúnsgarði á hliðina.
Þá voru nokkrar tilkynningar um sorptunnur, byggingarefni og trampólín á ferðinni auk þess sem þakplötur fuku af því sem eftir stendur af Hafnartúni í miðbæ Selfoss.
Útköll björgunarsveitanna voru ekki aðeins bundin við Selfoss því sveitir víða um Árnessýslu þurftu að sinna útköllum af þessu tagi.
Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi til klukkan 23:59 á miðvikudag. Á suðausturlandi er appelsínugul viðvörun í gildi til klukkan 6 á fimmtudagsmorgun.