Nýjasta æðið í líkamsrækt er trampólínfitness en í síðustu viku hófst slíkt námskeið hjá fyrirtækinu Danssport á Selfossi, og vakti strax mikla lukku.
Þetta er í fyrsta sinn sem kennsla í þessari tegund fitness fer fram hér á landi, en það hefur notið vinsælda víða í stórborgum Evrópu. Kennarar á námskeiðinu eru Anna Berglind Júlísdóttir, danskennari, og Silja Sigríður Þorsteinsdóttir, en þær eru jafnframt eigendur Danssports. Fyrr á þessu ári fóru þær stöllur til Lundúna til að verða sér út um réttindi til að kenna trampólínfitness.
„Ætli fólk að stunda svona rekstur er nauðsynlegt að vera á tánum og fylgjast með því nýjasta sem er að gerast og því ákváðum við að fara til London og ná okkur í réttindi fyrir trampólínfitness,“ segir Anna Berglind. Hún segist ekki vita til þess að trampólínfitness sé kennt annars staðar á landinu. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar.
„Við vorum með forskráningu og námskeiðið fylltist strax. Það komast fimmtán einstaklingar í hvern tíma en við keyptum sextán trampólín sem við höfum verið að nota í tímunum.“
Ekki of mikið álag
Anna segir að trampólínfitness sé mjög skemmtilegt og eitt skemmtilegasta æfingakerfið sem þær stöllur hafi prófað. „Það sem kom okkur á óvart er að þegar við stigum á trampólínið var hvað við vorum öruggar og fljótar að finna jafnvægi. Eins kom okkur líka á óvart hvað það er lítið álag á hné og bak, sem er ósjaldan ástæðan fyrir því að fólk á erfitt með að stunda líkamsrækt.“
Að sögn Önnu Berglindar reynir trampólínfitness á kvið, fætur og grindarbotn. Auk þess felst í þessu mikil brennsla. Hún segir einnig hægt að nota trampólínið á marga vegu, eins og til að styrkja, móta og teygja,
Elsti nemandinn um áttrætt
Þegar Anna og Silja voru að fara af stað með Danssport var Zumba að verða gríðarlega vinsælt á Norðurlöndunum. „Við ákváðum að fara til Hollands og ná okkur í réttindi til að kenna Zumba og koma með eitthvað nýtt og ferskt í dansflóruna. Zumba varð strax mjög vinsælt enda fyrst og fremst skemmtilegir tímar,“ segir Anna Berglind og bætir við að elsti nemandinn á þeim námskeiðum hafi verið um áttrætt.
Þá hefur samkvæmisdansinn verið að sækja í sig veðrið og segir Anna Berglind það vera skemmtilegt hvað ungt fólk er farið að verða duglegt við að sækja tímana. „Í fyrra kom hérna ungt par til að læra að dansa því þau voru að fara að gifta sig. Til að sýna þessu pari stuðning mætti allur vinahópurinn og var mikið fjör í tímanum. Enda snýst danstíminn ekki bara um dansinn heldur líka félagsskapinn,“ segir Anna Berglind að lokum.