Trassar sektaðir komi þeir of seint

Hreppsnefnd Hrunamannahrepps hefur samþykkt að láta innheimta sérstakt trassagjald fyrir hverjar 15 mínútur sem barn er sótt of seint á leikskólann Undraland.

Sektarkorterið byrjar að líða 10 mínútum eftir lok vistunartíma. Gjaldið verður kr. 500 fyrir hvert korter og breytingin tekur gildi frá og með 14. febrúar nk.

Sagði Ragnar Magnússon oddviti í samtali við Sunnlenska að ekki hafi borið mikið á því að foreldrar mættu of seint en þetta væri vaxandi vandamál og það ylli aukakostnaði vegna þess að starfsmenn leikskólans yrðu að bíða eftir að börnin væru sótt.

Fyrri greinEkki gert ráð fyrir lántökum
Næsta greinÖlfusingar vilja unglingalandsmót