Trausti kynnir „Mótun framtíðar“

Trausti Valsson, skipulagsfræðingur, kynnir bók sína „Mótun framtíðar“ í Tryggvaskála á Selfossi laugardaginn 21. nóvember kl. 13:30.

Á fundinum mun Trausti kynna nýútkomna ævi- og starfssögu sína Mótun framtíðar. Trausti mun segja frá forfeðrum sínum í Hreppum og sýna myndir af þeim.

Hann mun síðan fjalla um strauma og stefnur sem ríkt hafa í arkitektúr, skipulagi og byggðamálum sl. 50 ár en um þetta hefur Trausti fjallað mikið sem kennari og prófessor við Háskólann í 27 ár.

Trausti er þekktur fyrir að hafa sett fram mjög frumlegar og djarfar hugmyndir, t.d. um flugvöll á Lönguskerjum, Sundabraut fyrir framan byggðina í NA-hluta Reykjavíkur. En einna þekktastur er hann fyrir hálendisvegi til að stytta verulega leiðir á milli landshluta þar á meðal hinar fornu leiðir um Sprengisand og Kjalveg. Trausti mun sérstaklega fjalla um mikilvægi Kjalvegar og sýna vídeómyndir máli sínu til stuðnings. Í tilkynningu frá Trausta segir að bættur Kjalvegur sé mjög mikilvægur fyrir aukið samstarf Sunnlendinga og Norðlendinga í framtíðinni og hafi mikla þýðingu fyrir íslenska sem erlenda ferðamenn.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og landbúnaðarráðherra, mun stýra fundinum.

Allir velkomnir.

Fyrri greinMarín, Jana og Guðni taka forystuna
Næsta greinLambastaðir og Hraunmörk eru framúrskarandi