Tröppurnar í FSu skreyttar í regnbogalitunum

Ágústa í austurtröppum FSu sem hafa verið skreyttar í regnbogalitunum í tilefni af hinsegin vikunni. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Vikan 24. til 28. febrúar er hinsegin vika í Sveitarfélaginu Árborg, þar sem markmiðið er að vekja athygli á fjölbreytileikanum. Fjölbrautaskóli Suðurlands hefur tekið virkan þátt í hinsegin vikunni, meðal annars með því að skreyta skólann og halda fræðsluerindi.

Austurtröppur skólans hafa verið „málaðar“ í regnbogalitunum en þar til gerðir renningar hafa verið festir á tröppurnar, frá neðstu tröppu til þeirra efstu.

Tröppurnar hafa vakið bæði athygli og gleði. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Heiðurinn af skreytingunni – sem hefur vakið bæði athygli og gleði – eru myndlistarkennarar skólans, þær Ágústa Ragnarsdóttir og Anna Kristín Valdimarsdóttir. Þetta er í þriðja skipti sem tröppur skólans eru skreyttar í regnbogalitunum. Þess má geta að Ágústa og Anna Kristín voru tilnefndar til Menntaverðlauna Suðurlands á dögunum.

„Þetta er orðin svolítið gömul pæling. Ég fæ þessa hugmynd einhvern tímann þegar það eru hinsegin dagar í skólanum. Ég geri ráð fyrir því í áfanga sem ég var með þá sem hét endurvinnsla og hönnun. Þá tókum við viku í að búa til að búa til einhverja grafík úr ónýtum pappír í lit til að setja á tröppurnar og var það það metið sem verkefni,“ segir Ágústa í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta kom alveg ógeðslega vel út, eins og mósaík og rigndi niður stigana og var gríðarleg vinna en þetta var samt þannig að þegar þetta var tekið niður þá var það ónýtt. En þetta vakti gríðarlega athygli og það eru orðin mörg ár síðan þetta var.

Það er ekki bara guli liturinn sem er ríkjandi í FSu þessa vikuna. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Gardínur sem breyttust í regnboga
Ágústa segir að fyrir þremur árum hafi svo þessi regnbogarenningar sem skreyta nú tröppurnar orðið til. „Þetta er endurvinnsla líka. Nemendur, einkum á sérnámsbraut, máluðu þessa renninga en þessir renningar eru gamlar gardínurnar sem héngu hér uppi einu sinni. Ég hafði hirt þetta einhverjum árum áður og það er búið að mála allskonar á þetta.“

Hengt upp eftir kúnstarinnar reglum
Ágústa segir að renningarnir hafi alltaf verið að hrynja niður, sem hafi verið ömurlegt eftir alla þessa vinnu. „Núna þegar það stefndi í svona almennilega, feita, regnbogadaga þá hugsaði ég að við gætum notað þessa renninga aftur. Við höfðum eðlilega geymt þá, enda fjölnota, en ég hugsaði að líkleg yrði jafn erfitt að hengja þá upp eins og áður. En svo þykist ég hafa dottið niður á lausnina þannig að lunginn er festur með teppateipi og síðan notum við límbyssu og vonum að þetta haldi,“ segir Ágústa en þær Anna Kristín voru í fleiri fleiri klukkutíma að festa upp renningana. Það hafi hins vegar verið þess virði.

„Þetta vekur svo mikla gleði og fær rosalega góð viðbrögð. Þetta fær alveg að vera í friði enda svo ótrúlega fallegt,“ segir Ágústa að lokum.

Myndlistarkennarar FSu, Anna Kristín og Ágústa. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHnífjafnt á Skaganum en ÍA sigraði eftir framlengingu
Næsta greinStóri draumurinn að verða höfrungaþjálfari