Hjónin á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð, Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir og Óskar Magnússon, hafa tekið gróðrastöðina á Tumastöðum á leigu af Skógrækt ríkisins.
„Okkur fannst ótækt að þessi góða starfsemi legðist af en eftir að Barri varð gjaldþrota hefur engin ræktun farið fram í húsunum á Tumastöðum,“ sagði Hrafnhildur Inga í samtali við Sunnlenska.
Á Tumastöðum hefur verið gróðrastöð á skógrækt frá því á sjötta áratug síðustu aldar og Skógrækt ríkisins heldur nú þar úti skógrækt og grisjun.
„Lífríkið á Tumastöðum er einstakt. Þar eru kjöraðstæður til ræktunar. Búnaðurinn er kannski ekki eins fullkominn og á nýjustu stöðvunum en á móti kemur jörðin, umhverfið og forn frægð staðarins. Við kunnum ekki mikið fyrir okkur í ræktun af þessu tagi en vonum að með góðra manna hjálp megi koma Tumastöðum aftur á stað,“ sagði Hrafnhildur Inga. „Það eru margir sem hafa lagt langa lykkju á leið sína til að kaupa plöntur á Tumastöðum, kannski koma þeir tímar á ný.“
Hrafnhildur sagaði að á næstunni yrði sáð en enginn uppskera yrði til sölu í sumar því eyða hefði myndast í ferlið en næsta sumar yrðu til sölu birkiplöntur og svo yrði úrvalið aukið smám saman eftir því hvernig gengi. „Við förum hægt af stað en sjáum ýmsa möguleika sem við ætlum að láta reyna á,“ sagði Hrafnhildur Inga.