Tryggvaskáli á Selfossi og Friðheimar í Reykholti eru meðal bestu veitingastaða á Íslandi sem leggja áherslu á íslenskt hráefni í matargerð.
Þetta segir framreiðslumaðurinn Ólafur Örn Ólafsson í grein á ferðavefnum mustsee.is. Ólafur Örn er smekkmaður og veit hvað hann er að tala um.
Ólafur segir að Tryggvaskáli sé með nýstárlegan matseðil með norrænu yfirbragði. Þar er lögð mikil áhersla á fisk og lambakjöt.
Friðheimar eru ekki síðri, í yndislegu umhverfi inni í tómatgróðurhúsi. Þar eru fyrst og fremst í boði réttir sem hafa tómata sem grunn og það sé svo sannarlega mjög íslenskt hráefni.
Tryggvaskáli og Friðheimar eru ekki í amalegum félagsskap á lista Ólafs, en aðrir staðir sem hann nefnir til sögunnar eru Michelinstjörnustaðurinn Dill í Reykjavík, Slippurinn í Vestmannaeyjum og Geiri Smart í Reykjavík.