Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að tillögu húsafriðunarnefndar að friða Tryggvaskála á Selfossi og Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og nánasta umhverfi.
Friðunin í Skálholti nær til innra og ytra byrðis Skálholtskirkju, ytra byrðis Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar.
Ómissandi kennileiti
Tryggvaskáli var reistur 1890 af Tryggva Gunnarssyni í tengslum við smíði Ölfusárbrúar. Hann er elsta húsið á Selfossi og þykir ómissandi kennileiti sem nauðsynlegt er að varðveita
Meðal öndvegisverka íslenskrar húsagerðar
Skálholtskirkja er eitt af höfuð verkum Harðar Bjarnasonar, fyrrum Húsameistara ríkisins og ásamt með gluggum Gerðar Helgadóttur og altaristöflu Nínu Tryggvadóttur þykir hún meðal öndvegisverka íslenskrar húsagerðarlistar. Í júlí á þessu ári verður hálf öld liðin frá vígslu kirkjunnar.
Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitektar teiknuðu Skálholtsskóla árið 1970 og höfðu þeir fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.