Alvarleg veikindi komu upp í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni í gær og voru læknir og sjúkraflutningalið frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands send á vettvang á til að kanna aðstæður í gærkvöldi.
Á Úlfljótsvatni dvöldu um 175 manns, að mestu leyti börn og ungmenni á aldrinum 10-25 ára, sem eru erlendir gestir hérlendis. Á miðnætti kom í ljós að um ríflega 55 börn í hópnum eru veik að magakveisu.
Ákveðið var í samráði viðbragðsaðila á Suðurlandi að opna fjöldahjálparstöð vegna sýkingarinnar í grunnskólanum í Hveragerði.
Viðbragðsstjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hefur verið virkjuð, óskað hefur veirð eftir aðstoð björgunarsveita og Rauði kross Íslands hefur opnað fjöldarhjálparstöð í Hvergerði.
Allir 175 einstaklingarnir sem dvöldu á Úlfljótsvatni hafa verið fluttir til dvalar á fjöldahjálparstöðina meðan verið er að greina eðli og uppruna sýkingarinnar. Skólahúsnæðinu þar sem hjálpastöðin er staðsett, hefur verið skipt í tvö aðskilin svæði fyrir þá sem eru sýktir og veikir og fyrir þá sem eru ekki veikir eða einkennalausir.
Hjúkrunarfræðingar og læknar af bráðamóttöku HSU á Selfossi hafa verið kallaðir út og aukið viðbragð er einnig hjá sjúkraflutningamönnum og bráðaliðum HSU á Selfossi. Viðbragðsstjórn sendi vakthafandi lækni og sex heilbrigðisstarfsmenn til að greina og veita hinum veiku meðferð með lyfjum og vökvagjöf í æð. Fjöldi veikra fer vaxandi og er þörf á að kalla út allt tiltækt varalið heilbrigðisstarfsmanna hjá HSU.
Lagt er allt kapp á að hlúa að öllum sem veikjast og greina alvarleika veikinda til að veita viðeigandi meðferð strax. Uppruni veikindanna er enn ókunnur en sýni hafa verið tekin og send til rannsóknar.
Í tilkynningu frá Heilbrigðistofnun Suðurlands segir að allir alvarlega veikir sjúklingar verði fluttir til einangrunar og meðferðar á sjúkrahúsi ef þörf krefur.