Tugmilljóna verk við Svaðbælisá

Vélamenn frá Suðurverki hafa síðustu daga unnið að lagfæringum í og við Svaðbælisá sem flætt hefur yfir bakka sína á úrkomudögum.

Ástandið var verst í gríðarlegri rigningu um síðustu helgi en þá flæddi áin yfir þjóðveg 1. G.Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að bæði Svaðbælisá og Holtsá verði vaktaðar á rigningardögum og veginum haldið opnum.

Ekki sé hægt að áætla kostnað vegna þessa en þann 1. september hafði verið varið ríflega 20 miljónum króna í Svaðbælisánna og kom til sérstakt fé til þess vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

„Þeir fjármunir eru uppurnir þannig að frekari vinna leiðir þá til þess að minna fé verður í annað viðhald og rekstur á svæðinu,“ sagði Pétur í samtali við sunnlenska.is.

Hann bætti við að farið verði yfir málin í næstu viku en verið er að skoða leiðir til að leysa málið til frambúðar, með hækkun brúa og vegar.

Fyrri greinBundið slitlag kemur næsta sumar
Næsta greinSting Tribute í Hvíta í kvöld