Þorsteinn Gunnarsson, bóndi á Vatnsskarðshólum, fann tunglfisk rekinn í fjörunni vestan við Dyrhólaey um helgina. Þetta er í annað sinn sem tunglfiskur finnst á fjöru í Mýrdalnum.
Tunglfiskur (Mola mola) er ekki algengur við Íslandsstrendur en þetta er úthafsfiskur sem þrífst í hlýjum sjó. Hann hefur þó nokkrum sinnum slæðst í veiðarfæri á Íslandsmiðum, nú síðast í byrjun þessa mánaðar þegar Kap VE fékk lítinn tunglfisk í flottrollið út af Reykjanesi. Frægasti sunnlenski tunglfiskurinn var hinsvegar veiddur í höfninni í Þorlákshöfn árið 2004 og er til sýnis, uppstoppaður, í ráðhúsi Ölfuss.
Tunglfiskurinn í fjörunni við Dyrhólaey var á annan metra en þeir geta orðið rúmir þrír metrar að lengd. Meðalþyngd er um eitt tonn og meðallengd tæpir tveir metrar.
Þetta er annar tunglfiskurinn sem finnst á fjöru í Mýrdalnum en fyrir tveimur árum fannst samskonar fiskur á Reynisfjöru. Samkvæmt upplýsingum sem sunnlenska.is fékk hjá Hafrannsóknarstofnun eru þetta einu tilvik tunglfiskreka sem starfsmenn stofnunarinnar hafa heyrt af. Þó væri ekki hægt að útiloka fleiri tilvik þar sem tilkynningar um slíkt þyrftu ekki að berast Hafrannsóknarstofnun.