Fyrir tveimur árum hófst verkefni, sem snýst um að skynja, skilja og skilgreina vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum. Yfirskrift verkefnisins er Tunglskotin heim í hérað og að því hafa komið frumkvöðlar, fræðafólk og stuðningsumhverfi nýsköpunar úr ýmsum áttum, í gegnum fundi, vinnustofur, rannsóknir og viðtöl. Samtals um 100 manns að einhverju leyti.
Verkefnið hófst með vinnustofu sem haldin var í Frystiklefanum í Rifi 2021 og nú er komið að síðasta kafla verkefnisins, sem verður, ef vel tekst til, upphafið að nýjum leiðum til að styðja vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum. Öllum þeim sem láta sig nýsköpun í íslenskum landsbyggðum varða og eru tilbúin að ljá þeim krafta sína í tvo daga, er boðið að taka þátt í tveggja daga vinnustofu, 23. – 24. maí næstkomandi, að Laugum í Sælingsdal.
Á vinnustofunni þróa þátttakendur saman hugmyndir í átt að raunhæfum verkefnum, sem ætlað er að styðja við nýsköpunarvistkerfið. Afrakstur þessarar þróunarvinnu verður svo gjöf til íslensks nýsköpunarumhverfis sem öllum verður frjálst að hagnýta.
Vinnustofan er liður í verkefninu Að rækta vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum sem stutt er af Markáætlun um samfélagslegar áskoranir. Að verkefninu standa: Austan mána, Hacking Hekla, ILDI og Háskólasetur Vestfjarða. Verkefnisstjóri er Arnar Sigurðsson, hjá Austan mána.
Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni 2023. Nánari upplýsingar og skráning hér.