Hannah Tuomi, leikmaður kvennaliðs Hamars í körfunni, er með slitið krossband og liðbönd í hné og verður ekki meira með Hamri í vetur.
Hannah fékk högg á hnéð í leik gegn Val þann 9. nóvember og hefur ekki getað spilað síðan. Nú er komið í ljós hvers eðlis meiðslin eru.
Þetta er mikið áfall fyrir Hamarsliðið og hana sjálfa en hún hefur verið einn burðarása liðsins í vetur með 23 stig og 15 fráköst að meðaltali í leik. Auk þess að spila með meistaraflokki hefur Hannah þjálfað Hamar/FSu í stúlknaflokki og yngstu krakkana við góðan orðstýr.
Að sögn Antons Tómassonar, fjölmiðlafulltrúa Hamars, er óljóst á þessari stundu hvenær nýr leikmaður kemur inn í liðið. Hamar á sjö leiki eftir fram að jólum og óvíst er hvort takist að fylla skarðið sem Hannah skilur eftir sig fyrir jól.
Af öðrum leikmannamálum hjá Hamri má bæta við að Íris Ásgeirsdóttir kemur inn í liðið rétt fyrir jól en hún hefur verið erlendis í vetur.
Hamar tekur á móti toppliði Keflavíkur í kvöld kl. 19:15. Í herbúðum Keflvíkinga er Jaleesa Butler sem lék með Hamri í fyrra og þarf ekki að koma neinum á óvart að hún er efst í helstu tölfræðiþáttum Keflavíkurliðsins.