Tuttugu og sex kennarar í verkfalli og prófin í uppnámi

„Eins og staðan er núna í þessari þriðju viku verkfalls tónlistarskólakennara, virðist vera lítið tilefni til bjartsýni um að því ljúki á næstu dögum,“ segir Róbert Darling, skólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga um stöðuna í verkfalli tónlistarkennara.

Hann segir aðalkröfur tónlistarkennara þær að þeir fái sambærileg laun og grunn- og leikskólakennarar. „Mér finnst þessar kröfur mjög eðlilegar. Verkföll eru aldrei af hinu góða og aðeins notuð þegar engin önnur úrræði eru til staðar. Þegar verkföll verða innan skólakerfisins, er það því miður svo, að áhrifin eru miklu verri en verkfallið sjálft,“ segir Róbert.

Hann segir það muni taka margar vikur að koma nemendum skólans aftur á þann stað, sem þeir voru á við upphaf verkfalls.

„Ég er hræddur um að sumir nemendur, sem stefndu á hljóðfærapróf í lok vetrar, muni ekki ná að taka þau eins og til stóð,“ bætir hann við. Róbert segir að tónlistarmenntun sé mjög mikilvægur þáttur í góðu samfélagi, og fólk geri sér fulla grein fyrir því. „Ég held að allir þeir sem hafi eitthvað um málið að segja geri allt sem í þeirra valdi stendur til að binda enda á þetta ástand sem allra fyrst“, segir Róbert.

Í Tónlistarskóla Árnesinga eru 30 kennarar, þar af 26 í Félagi tónlistarkennara og eru því í verkfalli.

En hvernig verður nemendum bætt verkfallið? „Ennþá vitum við ekki hvenær verkfallinu lýkur og því er erfitt að segja nákvæmlega til um hvernig við komum til með að bæta nemendum upp kennslumissinn. En við munum gera allt sem við getum til að allir verði sáttir,“ segir Róbert.

Fyrri greinKviknaði í út frá kamínu
Næsta greinÞór vann stigakeppnina í annað sinn