Greiðslur til Heilsustofnunnar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði verða skornar niður um eitt hundrað milljónir króna á næsta ári. Allt að 20 starfsmönnum verður sagt upp.
Náttúrulækningafélag Íslands rekur Heilsustofnunina í Hveragerði samkvæmt þjónustusamningi við ríkið sem var undirritaður árið 2007 og hljóðar upp á 550 milljónir króna. Stjórnendur fullyrða að ríkið myndi spara á því að kaupa meiri þjónustu af stofnuninni.
Greiðslur voru skornar niður um 2% í fyrra og 6,7% á þessu ári. Samkvæmt fjárlögum stóð til að skera niður hjá stofnuninni um 5,5%, en í gær var stjórnendum stofnunarinnar tilkynnt símleiðis að niðurskurðurinn yrði 18%, eða um eitt hundrað milljónir króna. Ríkið hefur því ákveðið einhliða að skera niður samningsbundnar greiðslur til stofnunarinnar um 30% á þremur árum.
Hjá stofnuninni starfa 115 manns í 90 stöðugildum, langflestir heilbrigðismenntaðir. Þar er lögð áhersla á endurhæfingu eftir sjúkdómsmeðferðir, stuðning vegna andlegra veikinda, öldrunarmeðferð og almenna heilsueflingu og forvarnir. Um 1800 manns dvöldu á stofnuninni á síðasta ári og um 500 bíða eftir að komast að.
RÚV greindi frá.