Tuttugu mál sem varða slys á fólki voru skráð hjá lögreglunni á Suðurlandi í liðinni viku. Meðal annars slasaðist kona eftir að hafa gengið á rúðu í Víkurskála.
Rúðan brotnaði og konan hlaut minniháttar skrámur og skurði víðsvegar um líkamann. Lögregla var stödd skammt frá og aðstoðaði viðkomandi þar til sjúkrabifreið kom á staðinn.
Lögreglumenn á Höfn sinntu vélsleðaslysi á Skálafellsjökli. Þar slasaðist erlendur ferðamaður á fæti eftir fall af sleða sem hann ók. Hann var fluttur á heilsugæslu á Höfn og þaðan með sjúkraflugi til Akureyrar.
Annar ferðamaður féll á Sólheimajökli og rotaðist. Hann komst fljótlega til meðvitundar og var fluttur á heilsugæslu til aðhlynningar en reyndist ekki mikið meiddur.
Fimm knapar urðu fyrir meiðslum eftir að hafa fallið af baki. Þau slys urðu bæði í þéttbýli og á hálendinu og voru meiðsli fólksins mismunandi.
Þá brenndist barn brenndist eftir að heitur vökvi helltist úr bolla yfir það og í tveimur tilfellum urðu slys á fólki í umferðinni.