Þjóðkirkjan hefur auglýst prestssetrin Holt undir Eyjafjöllum og Tröð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi til sölu.
Holt og Tröð eru tvær af 26 jörðum sem síðasta kirkjuþing gaf heimild til að selja.
Óskað er eftir tilboðum í jarðirnar. Ásett verð á Holt er 80 milljónir króna en á Tröð eru settar 30-40 milljónir samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamiðstöðinni sem annast söluna.
„Í báðum tilvikum er um að ræða aflögð prestsetur þannig að það er ekki beinlínis þörf fyrir þær jarðir í kristilegu starfi,“ segir Guðmundur Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, í Morgunblaðinu í dag. Þá hafi kirkjan brugðist við niðurskurðarkröfu með þessum hætti.