Tvær konur örmagna á Fimmvörðuhálsi

Annan daginn í röð voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út til að aðstoða göngufólk í vanda á Fimmvörðuhálsi. Að þessu sinni var um að ræða tvær konur sem voru villtar og örmagna.

Björgunarsveitir voru kallaður út laust fyrir hádegi en slæmt veður var á svæðinu, rigning og þoka. Skyggni var lítið sem ekkert, varla sást milli stika og fyrir vikið villtust konurnar af leið. Þeim tókst að koma upp göngutjaldi og þar höfðust þær við þar til hjálp barst en unnt var að ná símasambandi við þær og senda þeim boð gegnum „Rescue me“ kerfið sem gaf upp nákvæma staðsetningu þeirra.

Þegar björgunarsveitarmenn á fjórhjólum konu að konunum var hlúð að þeim, þær færðar í hlý og þurr föt og þeim gefinn matur og heitir drykkir en þær voru bæði kaldar og hraktar. Þær eru nú komnar til byggða.

Á leið sinni til kvennanna rákust björgunarmenn á tvær aðrar göngukonur sem höfðu villst í þokunni á Fimmvörðuhálsi og þeim var einnig hjálpað til byggða.

Í gær voru björgunarsveitir kallaðar út síðdegis til aðstoðar göngukonu sem hafði slasast illa á ökkla á Heljarkambi og í því útkalli rákust björgunarmenn á aðra göngukonu sem hafði ofkælst á Fimmvörðuhálsi.

Fyrri greinGunnar Bjarni skoraði þrennu í öruggum sigri
Næsta greinEldur í fjölbýlishúsi á Selfossi