Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út um klukkan hálf þrjú í dag vegna tveggja kvenna sem eru villtar á Fimmvörðuhálsi.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að konurnar hafi náð sambandi við Neyðarlínuna. Þær eru ekki slasaðar, en kaldar og hraktar. Þær halda kyrru fyrir á þeim stað sem þær náðu sambandi við Neyðarlínu og eru björgunarsveitir á leiðinni til þeirra á bílum, sexhjólum og gangandi.
Mikil þoka er á svæðinu og lélegt skyggni.