Á hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands í Fjölbrautaskóla Suðurlands í dag var úthlutað tveimur styrkjum, samtals 1,5 milljónum króna til tveggja rannsóknarverkefna á Suðurlandi.
Styrkþegar ársins eru Ástrós Rún Sigurðardóttir og Ingbjörg Lilja Ómarsdóttir, báðar nemendur við Háskóla Íslands.
Ástrós Rún hyggst skoða hvort félagsleg þátttaka foreldra innflytjendabarna í Árborg hafi áhrif á nám barna þeirra og komast að því hvort og þá hvers vegna þessir nemendur lenda utangarðs í skólasamfélaginu eins og margar aðrar sambærilegar rannsóknir sýna. Um er að ræða rannsókn til meistaragráðu.
Rannsókn Ingibjargar Lilju er doktorsrannsókn sem beinir sjónum að seiglu samfélaga vegna náttúruhamfara. Kannað verður hvernig íbúar, starfsfólk og viðbragðsaðilar í sveitarfélögunum Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi, álitu sig í stakk búin til að takast á við eldgos áður en Eyjafjallajökulsgosið hófst árið 2010, hvaða áhrif gosið hafði og hvernig þessum samfélögum gekk að takast á við afleiðingar gossins.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti og styrkina á hátíðarfundinum í dag og styrkþegar ársins 2016, Aníta Þorgerður Tryggvadóttir og Ingibjörg Steinunn Sæmundsdóttir, kynntu áhugaverðar niðurstöður í verkefni sínu um fjölþætta heilsurækt í sveitarfélögum.