
Á hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands í gær var úthlutað styrkjum til tveggja rannsóknarverkefna. Menntaverðlaun Suðurlands 2024 voru afhent við sama tilefni og féllu þau í skaut fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Árborgar.
Úr vísinda- og rannsóknarsjóðnum var úthlutað 1,5 milljónum króna og skiptust þær jafnt á milli tveggja styrkþega. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, afhenti styrkina og flutti ávarp en forsetaembættið hefur alla tíð tekið þátt í hátíðarfundinum.
Anna Guðrún Þórðardóttir, doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands, fékk styrk vegna verkefnisins Erfðaleg aðlögun byggs að krefjandi umhverfisaðstæðum. Um er að ræða rannsóknarverkefni þar sem meginmarkmiðið er að stuðla að þróun byggyrkja sem eru aðlöguð kaldtempruðum umhverfisskilyrðum líkt og á Íslandi.
Þá fékk Clémence Daigre, doktorsnemi við Háskóla Íslands, styrk til verkefnisins IceAq. Markmið þess er að auka skilning á breytingum í vatnskerfum jökla, sérstaklega hvernig vatn flyst frá jökulyfirborði, niður í rennsliskerfi við jöklulbotn og þaðan í grunnvatnskerfið þar undir.

Íslenskunámskeið fyrir foreldra grunnskólabarna
Menntaverðlaun Suðurlands eru veitt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Að þessu sinni komu þau í hlut fjölskyldusviðs Árborgar, sem staðið hefur fyrir hagnýtum íslenskunámskeiðum fyrir foreldra barna á grunnskólaaldri með fjölmenningarlegan bakgrunn. Markmið verkefnisins er að bjóða foreldrum grunnskólanema með fjölmenningarlegan bakgrunn ókeypis íslenskunámskeið þar sem þeir kynnast helstu hugtökum og efla orðaforða sem tengist skólastarfi, en rannsóknir sýna að tungumálaörðugleikar geta hindrað þátttöku foreldra í skólastarfi.
Anna kynnti rannsókn sína
Hátíðarfundurinn var haldinn í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands. Dagskráin hófst á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga og áður en styrkir og verðlaun voru afhent flutti styrkþegi ársins 2022, Anna Selbmann, ákaflega fróðlegt erindi. Þar sagði hún frá rannsókn sinni um samskipti grindhvala og háhyrninga á hafsvæðinu í kringum Vestmannaeyjar.