Tveir á sjúkrahús eftir harðan árekstur

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Harður árekstur tvegga bíla varð á Gaulverjasbæjarvegi, skammt frá Hraunsá vestan við Stokkseyri laust eftir klukkan hálf fimm í dag.

Þar rákust saman bílar sem komu úr gagnstæðum áttum. Ökumennirnir voru báðir einir á ferð og þurfti að beita klippum til þess að ná þeim út úr bílunum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang vegna slyssins. Ökumennirnir voru báðir fluttir á slysadeild í Reykjavík.

Fjölmennt lið viðbragðsaðila var kallað á vettvang, meðal annars tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi. Lögreglan er enn við vinnu á vettvangi og getur ekki gefið frekari upplýsingar um slysið að svo stöddu.

Kl. 19:05: Vegurinn er ennþá lokaður vestan við Stokkseyri en þeim sem þurfa að komast til Stokkseyrar er bent á að fara Gaulverjabæjarveg austan megin, um Flóann.

Kl. 19:25: Búið er að opna Gaulverjabæjarveg.

Fyrri greinHreint styrkir Votlendissjóð á afmælisdaginn
Næsta greinAlvarlegt vinnuslys í uppsveitunum