Tveir dæmdir í 20 mánaða fangelsi

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag tvo 26 ára gamla karlmenn í 20 mánaða fangelsi fyrir stórfellda kannabisræktun í Þykkvabæ.

Þriðji maðurinn var hins vegar sýknaðir af ákæru. Ekki var fallist á kröfu lögreglu um að gera upptækar tæpar 12 milljónir króna og 7265 evrur, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Mennirnir voru dæmdir fyrir að hafa í ágúst 2008 sett upp mjög stóra ræktunaraðstöðu fyrir allt að 500 kannabisplöntur í útihúsi í Þykkvabæ. Lögregla fann verksmiðjuna ári síðar. Þá voru þar 493 kannabisplöntur sem samtals vógu 68 kíló, 2,7 kíló af kannabislaufum og 10,98 grömm af hassi.

Mennirnir hafa báðir hlotið dóma áður fyrir ýmis brot, þar á meðal fíkniefnabrot. Í bankahólfi annars þeirra fundust 11,8 milljónir króna í seðlum og 7.265 evrur. Lögregla krafðist þess að féð yrði gert upptækt þar sem það væri hagnaður af fíkniefnasölu.
Eigandi bankahólfsins bar því við að peningarnir í hólfinu væru m.a. tekjur af „svartri“ verktakastarfsemi sinni og tryggingabætur sambýliskonu sinnar en þau hafi ekki treyst bönkunum til að geyma peninga sína eftir bankahrunið.

Dómurinn segir, að þótt skýringar mannsins á tilurð fjárins kunni að virðast ótrúverðugar og lúti meira og minna allar að skattundanskotum og fjárhættuspilum, þá breyti það ekki því, að engar sönnur hafi verið færðar á það að ávinningur hafi orðið af brotinu eða að fjárins hafi að öðru leyti verið aflað með fíkniefnasölu.

Fyrri greinSoffía býður sig fram
Næsta greinGreið leið um Bláskógabyggð