Tvisvar gerðist það um helgina að menn féllu af húsþaki og fótbrotnuðu í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Í öðru tilvikinu var ungur maður sem gerði sér að leik að stökkva af húsþaki íbúðarhúss á Selfossi.
Fallið var fjórir metrar niður á malarplan og tókst lendingin það illa að maðurinn lá eftir fótbrotinn.
Í hinu tilvikinu féll maður af þaki iðnaðarhúsnæðis og hlaut opið beinbrot. Maðurinn hafði verið að lagfæra þakplötur þegar hann rann til á launísuðu þakinu. Fallið var um fjórir metrar. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild Landspítalans í Fossvogi.
Þá slasaðist björgunarsveitarmaður slasaðist á hné þegar hann var að losa niður auglýsingaskilti sem var í hættu í verslunarmiðstöðinni í Sunnumörk í Hveragerði í ofsaveðrinu á föstudag.
Maðurinn var uppi á bíl að teygja sig í skilltið þegar snörp vindkviða skellti honum niður af bílþakinu á götuna. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæsluna á Selfossi þar sem gert var að sárum hans. Hann mun ekki hafa hlotið alvarleg meiðsl.
Mörg verkefni komu á borð lögreglunnar á Selfossi um liðna helgi. Margar fyrirspurnir bárust frá borgaranum sem var að leita ráðleggiga vegna veðurofsans. Einnig voru útköll vegna ölvunar sem lögreglumenn þurftu að sinna.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra var auk þess ekki með ökuréttindi.