Fjögur slys önnur en umferðarslys komu til kasta lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Í tveimur tilvikum slösuðust ferðamenn við sunnlenskar náttúruperlur.
Sunnlenska.is hefur þegar greint frá rjúpnaskyttu sem varð fyrir slysaskoti í Eldhrauni á föstudaginn. Maðurinn hlaut töluverða áverka og var fluttur með þyrlu á sjúkrahús.
Í gær slasaðist ferðamaður við Dyrhólaey á baki þegar bílhurð sem hann opnaði fauk á hann og kastaði honum þannig að hann féll á grjót skammt frá. Viðkomandi var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.
Á fimmtudag slasaðist ferðamaður við Seljalandsfoss þegar klakastykki hrundi á hann úr berginu við fossinn. Maðurinn mun hafa farið inn fyrir lokun sem búið var að setja upp vegna hættu sem ætið verður þegar ís safnast við fossinn.
Þá slasaðist gangandi vegfarandi á Selfossi þegar hann datt á föstudaginn og hlaut skurð á höfði.