Lögreglan á Selfossi fór í dag í umferðareftirlit með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Flogið var með Suðurlandsvegi frá Selfossi austur á Mýrdalssand og upp í Landsveit.
Hraði ökutækja var mældur úr þyrlunni á flugi. Einnig voru lögreglumenn með ratsjá sem notuð var á jörðu.
Á Mýrdalssandi voru tveir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Annar ók á 111 km hraða og hinn á 112 km hraða. Aðrir gátu státað af því að þurfa ekki að eyða peningum í sektir.
Lögreglan segir umferðareftirlit af þessu tagi vera mjög mikilvægt og nýtist vel í að fylgjast með utanvegaakstri. Landhelgisgæslan og lögreglan hafa undanfarin sumur átt mjög gott samstarf vegfarendum og öðrum til heilla.