Tveir laxar komu á land í opnun Tungufljóts í Biskupstungum á sunnudag og misttu veiðimenn tvo til viðbótar.
Einungis var veitt í sex klukkutíma og voru menn nokkuð sáttir með árangurinn. Báðir laxarnir komu á land í Faxa, báðir komu á black & blue túbur – litlar og óþyngdar.
Ný veiðihús eru við ána og er mikil ánægja með þau. Ennþá er verið að standsetja stærra húsið sem þjónar vesturbakkanum en minna húsið er tilbúið og allt hið glæsilegasta. Ekki eru meira en 50 metrar á milli húsa og greiðfært á milli.
Breyttir veiðihættir eru í Tungufljóti í sumar; veitt er á fjórar stangir á vesturbakka fljótsins, frá Faxa og niður að Bræðratungubrú en veitt er á tvær stangir á austurbakka fljótsins, frá Faxa og niður að Bræðratungubrú. Með stöngunum á vesturbakkanum fylgir stærra húsið, fjögurra herbergja hús við Eyjaveg 15, en með stöngunum á austurbakkanum fylgir minna húsið, tveggja svefnherbergja hús við Eyjaveg 20.