Veirusjúkdómarnir Gumboro veiki og innlyksa lifrarbólga hafa greinst í kjúklingum á Rangárbúinu á Hólavöllum í Landssveit.
Matvælastofnun hefur sett búið í einangrun með það að markmiði að útrýma sjúkdómunum áður en þeir ná fótfestu hérlendis.
Grunur um smitsjúkdóm vaknaði eftir veikindi og aukin dauðsföll á búinu í lok júlí og þá tilkynnti Reykjagarður hf. málið til Matvælastofnunar. Stofnunin setti flutningsbann á búið og upplýsti aðila sem tengdust búinu og alifuglabændur um málið. Allir flutningar til og frá búinu eru bannaðir nema með sérstöku leyfi stofnunarinnar.
Báðir sjúkdómarnir finnast eingöngu í fuglum og berst smit ekki í menn eða önnur spendýr. Fólk getur ekki smitast af fuglunum eða við neyslu á kjúklingakjöti.
Veirusjúkdómarnir tveir eru útbreiddir í öllum fjórum húsum búsins sem innhalda tæplega 50 þúsund fugla samanlagt. Kjúklingunum er slátrað undir eftirliti Matvælastofnunar og húsnæði þrifið og sótthreinsað í kjölfarið. Smitið virðist bundið við þetta eina bú og ekki er grunur um frekari útbreiðslu. Ekki er vitað með hvaða hætti sjúkdómarnir bárust á búið.